26.11.2008 - Góðar fréttir og slæmar Prenta út

Jæja, það hefur lítið heyrst frá mér síðastliðinn mánuð en það er vegna þess að lítið hefur verið að gerast og fátt að segja frá. Núna er komið að því að setja inn smá fréttir.

Góðar fréttir:
Komnir eru oddar og snúrur til að gera 40cm hringprjón. Oddarnir eru 10cm langir og því styttri en þessir venjulegu sem eru 11,5cm. Að sjálfsögðu er hægt að nota oddana með lengri snúrum en hafa verður í huga að það getur verið að þeir fari ekki eins vel í hendi. Ég mæli ekki með því að 40cm snúran sé notuð með lengri oddunum því það er erfitt að prjóna þannig.

Litlu settin hafa hingað til bara verið í boði í einni stærð en núna hefur bæst við "chunky" sett sem er með 9mm, 10mm og 12mm odda. Þetta er spennandi fyrir þær/þá sem vilja prjóna úr grófara garni.

Úrvalið af sokkaprjónum er að aukast, það er búið að bæta við nokkrum stærðum í 15cm og 20cm löngum sokkaprjónum, en einnig er núna hægt að fá 10cm sokkaprjóna í heilum og hálfum stærðum frá 2mm upp í 4mm.

Beinu prjónarnir sem til hafa verið í 25cm og 35cm lengdum eru núna einnig til í 30cm.

Heklunálar í nokkrum útfærslum eru loksins komnar. Þær eru til venjulegar í stærðum frá 3mm upp í 12mm, svo eru til heklunálar með oddi beggja vegna, heil stærð öðrumegin og hálf hinumegin í stærðum 3 og 3,5 - 4 og 4,5 - 5 og 5,5 - 6 og 6,5 - 7 og 8 - 9 og 10. Síðast en ekki síst eru til heklunálar fyrir rússneskt hekl (Tunesian crochet eða afghan crochet á ensku) en þær eru með skrúfgang á endanum þannig að hægt er að skrúfa þær upp á Knit Picks snúrurnar.

Slæmar fréttir:
Vegna umróts í bankamálum og lækkunar á gengi krónunnar hækka allar Knit Picks vörurnar í verði. Mér þykir þetta mjög leiðinlegt því ein af hugmyndunum á bak við Knit Picks prjónana er að þeir séu á viðráðanlegu verði og jafnvel hagkvæmari heldur en samkeppnisaðilarnir. Ég get huggað ykkur með því að ég er ekki olíufyrirtæki og mun því lækka verðið á vörunum um leið og ég get - hvenær sem það verður.

Aðrar fréttir:
Það stendur til að halda áfram að þróa þessa síðu og meðal þess sem ég hef hug á að bæta við er bókaumfjöllun þar sem ég mun deila skoðunum mínum á hinum ýmsu prjónabókum með ykkur. Formið sem ég hef hugsað mér að hafa á þessu er þannig að ég ætla bara að fjalla um bækur sem ég er hrifin af en ekki vera með neikvæða gagnrýni. Að sjálfsögðu mun ég benda á ef einhverjir vankanntar eru á bókinni, en gera má ráð fyrir að meira jákvætt sé um hana að segja heldur en neikvætt ef um hana er fjallað.

Annað sem mig langar til að bæta við eru fríar prjónauppskriftir og fróðleikur. Ef þig langar til að spreyta þig á að hanna og skrifa prjónauppskrift þá er ég til í að birta hana, eins ef þú veist um fría uppskrift einhversstaðar frá og langar til að sjá hana hér þá endilega láta mig vita.

Breytingarnar sem ég tala um hér að ofan munu gerast í rólegheitunum næstu daga og vikur, vinsamlegast sýnið þolinmæði. Ég á ekki allar nýju vörurnar á lager, eitthvað er eftir af vörum á "gamla" verðinu og svo framvegis.

Kveðja,
Elín