25. janúar 2009 - Nýtt ár og einhverjar breytingar  Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Það hefur orðið smá breyting á umbúðum og nafni Knit Picks prjónavaranna.
 
Þannig er mál með vexti að Knit Picks er amerískt framtak en prjónarnir eru framleiddir á Indlandi. Í samningum á milli fyrirtækjanna er kveðið á um að ameríska fyrirtækið eigi réttinn í Ameríku en framleiðslufyrirtækið á réttinn fyrir restina af heiminum. Undanfarið hafa komið fram nokkrar nýjungar í Knit Picks línunni (t.d. rússnesku heklunálarnar sem við eigum heiðurinn að) sem ekki hafa verið bornar undir eða samþykktar af ameríska fyrirtækinu og er svo komið að skilja á að Ameríkumarkað og restina af heiminum.
 
Knit Picks heldur áfram sem vörumerki í Ameríku en fyrir okkur hin koma vörurnar til með að heita KnitPro. Þetta eru nákvæmlega sömu vörurnar, og hægt verður að nota þær saman hvort sem keypt er í Ameríku eða annarsstaðar.

Ég á enn einhvern lager af vörum merktar Knit Picks en allar nýju vörurnar sem ég panta inn eru merktar Knit Pro. Þetta er náttúrulega svolítil breyting þar sem allt síðasta ár fór í að kynna vörurnar undir merki Knit Picks en ég vona að nýja nafninu verði vel tekið.

Kveðja,
Elín.