Takk fyrir mig  Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Námskeiðatörninni er lokið í bili og ég komin í smá frí. Þetta voru mjög ólíkir en skemmtilegir hópar sem ég var að kenna, og gaman að sjá hversu margir eru áhugasamir um The Magic Loop aðferðina til að prjóna tvo smærri hluti á einn langan hringprjón.

Ég fékk skemmtilegar athugasemdir og upp kom sú hugmynd að skipuleggja kaffihúsahitting þegar ég kem úr fríinu til að gefa þeim sem hafa verið á námskeiðinu tækifæri til að hittast aftur, sýna hvað þær hafa verið að gera og líka til að rifja aðeins upp ef eitthvað hefur gleymst í millitíðinni. Þangað til og auk þess er að sjálfsögðu tilvalið að kíkja í prjónakaffið sem Heimilisiðnaðarfélag Íslands stendur fyrir og er á kaffihúsinu Amokka í Kópavoginum fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði. Ég reyni alltaf að mæta þegar ég get og vil ég endilega hvetja þær ykkar sem hafa mætt á námskeiðin til að kíkja á mig og spjalla.

Það verða fleiri námskeið þegar ég kem úr fríinu, og hugsanlega eitthvað nýtt til að sýna og kenna.