Upplýsinngar um Knit Pro prjónana  Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Options prjónarnir eru þannig gerðir að prjóna oddurinn (prjónninn) kemur sér og er hægt að velja um málm odda eða tré odda, snúran er skrúfuð í oddinn og svo annað hvort annan odd sömu stærðar (eða stærri/minni fyrir þá sem prjóna brugnar lykkjur lausar/fastar en sléttar) eða tappi er settur á hinn enda snúrunnar. Þetta gefur þér hringprjón eða langan "beinan" prjón með sveigjanlegum enda sem er mjög gott þegar verið er að prjóna stærri stykki og óþægilegt er að hafa þyngdina á enda langs prjóns. Snúran hefur lítið sem ekkert minni og er því tilvalin þegar verið er að prjóna með The Magic Loop aðferðinni.

KnitPro býður auk þess upp á þessa hefðbundnu sokkaprjóna og hringprjóna, bæði úr málmi og tré. Hringprjónarnir eru með sömu snúru og er í samsettu prjónunum, og sokkaprjónarnir koma í þremur lengdum - 10cm, 15cm og 20cm.

Tréprjónarnir og -oddar eru búnir til úr birki sem hefur verið litað og límt saman í sneiðum. Þetta veldur því að þeir eru sterkari en annars og er því auðveldara að búa til beittari odda á þá sem er tilvalið fyrir blúnduprjón. Viðurinn gerir það líka að verkum að prjónninn er ekki eins sleipur og gerir það blúnduprjónið enn auðveldara - eins fyrir þá sem eru að byrja að prjóna - þar sem minni hætta er á að missa niður lykkjur.

Haustið 2008 komu tvær nýjungar frá Knit Pro, beinir prjónar bæði 25 og 35cm langir og heklunálar. Heklunálarnar eru úr litaða birkinu eins og tré oddarnir en þær koma bæði eins og þessar hefðbundnu heklunálar en líka með króki á báðum endum (annar í heilu númeri og hinn í hálfu, t.d. 3 og 3,5). Auk þess koma rússneskar heklunálar, einnig þekktar á ensku sem "Afghan Crochet" eða "Tunisian Crochet", sem hægt er að skrúfa á snúrurnar sem koma með Knit Pro prjónunum.