Velkomin á heimasíðu Prjónakonunnar
24. maí 2010 - Vikurnar sem urðu að mánuðum

Jæja, vikurnar urðu að mánuðum og vinnunni er ekki lokið.

Ég stakk af til Bandaríkjanna í mánuð þar sem ég fór m.a. á Stitches South prjónaráðstefnuna. Þar kynntist ég ýmsum nýjungum auk þess sem ég sótti námskeið í bútaprjóni (e. entrelac) sem verður nýja kennsluefnið mitt. Þetta er hluti af þeirri vinnu sem ekki er lokið, ég er á fullu að prjóna prufustykki, taka myndir og svo þarf að skrifa lýsingar og leiðbeiningar.

Von er á einhverjum nýjungum í netverslunina þegar líða fer á haustið, ég er í samningaviðræðum við nokkra aðila um að fá að flytja inn og selja vörur frá þeim.

Kveðja,
Elín E

 
27. janúar 2010 - Netverslunin lokuð tímabundið

Vegna breytinga á virðisaukaskatti og skipulagsbreytinga mun netverslunin vera lokuð tímabundið. Ég býst við að þetta verði kannski 2-3 vikur en hægt verður að hafa samband í gegnum tölvupóstinn ( prjonakona hjá gmail punktur com ) ef ykkur vantar eitthvað.

Vonandi kemur þetta sér ekki illa,
Elín

 
11. júlí 2009 - Nýjar og spennandi vörur

Í þessum skrifuðu orðum er verið að bæta inn nýjum og spennandi vörum í netverslunina. Meðal annars eru:
sjalaprjónar, þ.e. prjónar til að festa sjöl saman - ekki til að prjóna þau :)
handlitað garn, hver og ein hönk er einstök, hægt að fá garnið vafið í hnykil ef óskal er eftir
prjónamerki, skemmtileg ný prjónamerki, öðruvísi en hafa fengist hingað til

Einnig er á leiðinni ný sending af KnitPro vörum, viðbætur inná tóman lager auk nýjunga frá framleiðandanum.

Fljótlega má svo búast við enn frekari spennandi nýjungum sem ekki hafa sést áður hér á landi.

Kveðja,
Elín E.

 
6. júní 2009 - Spjallinu lokað Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Sökum þess að spjallborðinu hefur ekki verið tekið eins vel og vonast var til hef ég ákveðið að loka því og bendi frekar á að fólk skrái sig á Ravelry og nýti sér allt sem það hefur uppá að bjóða.

Kveðja,
Elín

 
3. júní 2009 - Námskeið, námskeið og fleiri námskeið. Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Í þetta sinn var ég ekki að kenna heldur var ég að auka við þekkingu mína og undirbúa ný námskeið sem verða í boði frá og með haustinu. Ég skellti mér til Ameríku á nokkurskonar prjónaráðstefnu sem heitir Stitches. Stitches hefur verið haldið í fjölda mörg ár og í ár bættist Stitches South, haldið í Atlanta, GA, í hópinn. Fyrir hafa verið Stitches East, Stitches West og Stitches Midwest, auk Camp Stitches.

 

Námskeiðin sem ég skellti mér á voru:
Don't Fear Lace, kennari: Debbie Radke
Shetland Shawls, kennari: Joan Shrouder
Thinking Outside the Rectangle, kennari: Sandy Rosner
Creative Wraps and Shawls to Your Porportion, kennari: Susan Lazear

 

Auk námskeiðanna er markaðstorg á staðnum þar sem eru samankomnir heildsalar, framleiðendur, garnbúðir, einstaklingar með smáframleiðslu og fleira. Það var ofboðslega gaman að sjá allt handlitaða garnið sem er í boði, auk nýrra garntegunda (t.d. sá ég eitt úr mjólkurprótíni og annað úr kornhyski) og allskyns smáhluta (og stærri hluta) sem gott er að hafa við hendina í prjónaskapnum. Ég er komin með tengiliði og hugmyndir að fleiri hlutum til að bjóða uppá í netversluninni svo það er spennandi að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.

 
26.11.2008 - Góðar fréttir og slæmar Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Jæja, það hefur lítið heyrst frá mér síðastliðinn mánuð en það er vegna þess að lítið hefur verið að gerast og fátt að segja frá. Núna er komið að því að setja inn smá fréttir.

Góðar fréttir:
Komnir eru oddar og snúrur til að gera 40cm hringprjón. Oddarnir eru 10cm langir og því styttri en þessir venjulegu sem eru 11,5cm. Að sjálfsögðu er hægt að nota oddana með lengri snúrum en hafa verður í huga að það getur verið að þeir fari ekki eins vel í hendi. Ég mæli ekki með því að 40cm snúran sé notuð með lengri oddunum því það er erfitt að prjóna þannig.

Litlu settin hafa hingað til bara verið í boði í einni stærð en núna hefur bæst við "chunky" sett sem er með 9mm, 10mm og 12mm odda. Þetta er spennandi fyrir þær/þá sem vilja prjóna úr grófara garni.

Úrvalið af sokkaprjónum er að aukast, það er búið að bæta við nokkrum stærðum í 15cm og 20cm löngum sokkaprjónum, en einnig er núna hægt að fá 10cm sokkaprjóna í heilum og hálfum stærðum frá 2mm upp í 4mm.

Beinu prjónarnir sem til hafa verið í 25cm og 35cm lengdum eru núna einnig til í 30cm.

Heklunálar í nokkrum útfærslum eru loksins komnar. Þær eru til venjulegar í stærðum frá 3mm upp í 12mm, svo eru til heklunálar með oddi beggja vegna, heil stærð öðrumegin og hálf hinumegin í stærðum 3 og 3,5 - 4 og 4,5 - 5 og 5,5 - 6 og 6,5 - 7 og 8 - 9 og 10. Síðast en ekki síst eru til heklunálar fyrir rússneskt hekl (Tunesian crochet eða afghan crochet á ensku) en þær eru með skrúfgang á endanum þannig að hægt er að skrúfa þær upp á Knit Picks snúrurnar.

Slæmar fréttir:
Vegna umróts í bankamálum og lækkunar á gengi krónunnar hækka allar Knit Picks vörurnar í verði. Mér þykir þetta mjög leiðinlegt því ein af hugmyndunum á bak við Knit Picks prjónana er að þeir séu á viðráðanlegu verði og jafnvel hagkvæmari heldur en samkeppnisaðilarnir. Ég get huggað ykkur með því að ég er ekki olíufyrirtæki og mun því lækka verðið á vörunum um leið og ég get - hvenær sem það verður.

Aðrar fréttir:
Það stendur til að halda áfram að þróa þessa síðu og meðal þess sem ég hef hug á að bæta við er bókaumfjöllun þar sem ég mun deila skoðunum mínum á hinum ýmsu prjónabókum með ykkur. Formið sem ég hef hugsað mér að hafa á þessu er þannig að ég ætla bara að fjalla um bækur sem ég er hrifin af en ekki vera með neikvæða gagnrýni. Að sjálfsögðu mun ég benda á ef einhverjir vankanntar eru á bókinni, en gera má ráð fyrir að meira jákvætt sé um hana að segja heldur en neikvætt ef um hana er fjallað.

Annað sem mig langar til að bæta við eru fríar prjónauppskriftir og fróðleikur. Ef þig langar til að spreyta þig á að hanna og skrifa prjónauppskrift þá er ég til í að birta hana, eins ef þú veist um fría uppskrift einhversstaðar frá og langar til að sjá hana hér þá endilega láta mig vita.

Breytingarnar sem ég tala um hér að ofan munu gerast í rólegheitunum næstu daga og vikur, vinsamlegast sýnið þolinmæði. Ég á ekki allar nýju vörurnar á lager, eitthvað er eftir af vörum á "gamla" verðinu og svo framvegis.

Kveðja,
Elín

 

 
25. janúar 2009 - Nýtt ár og einhverjar breytingar Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Það hefur orðið smá breyting á umbúðum og nafni Knit Picks prjónavaranna.
 
Þannig er mál með vexti að Knit Picks er amerískt framtak en prjónarnir eru framleiddir á Indlandi. Í samningum á milli fyrirtækjanna er kveðið á um að ameríska fyrirtækið eigi réttinn í Ameríku en framleiðslufyrirtækið á réttinn fyrir restina af heiminum. Undanfarið hafa komið fram nokkrar nýjungar í Knit Picks línunni (t.d. rússnesku heklunálarnar sem við eigum heiðurinn að) sem ekki hafa verið bornar undir eða samþykktar af ameríska fyrirtækinu og er svo komið að skilja á að Ameríkumarkað og restina af heiminum.
 
Knit Picks heldur áfram sem vörumerki í Ameríku en fyrir okkur hin koma vörurnar til með að heita KnitPro. Þetta eru nákvæmlega sömu vörurnar, og hægt verður að nota þær saman hvort sem keypt er í Ameríku eða annarsstaðar.

Ég á enn einhvern lager af vörum merktar Knit Picks en allar nýju vörurnar sem ég panta inn eru merktar Knit Pro. Þetta er náttúrulega svolítil breyting þar sem allt síðasta ár fór í að kynna vörurnar undir merki Knit Picks en ég vona að nýja nafninu verði vel tekið.

Kveðja,
Elín.

 
23.10.2008 - Fátæklegt á lagernum Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Jæja, þá er eitthvað orðið fátæklegt af algengustu hlutunum á lager hjá mér. Stóru tré settin eru alveg búin en enn er eitthvað til af málm settunum og litlu settunum. Eins eru 60 og 100 cm snúrurnar alveg búnar, en nóg til af hinum þremur stærðunum.

Stefnan er að senda út pöntun eins fljótt og ég get en við vitum öll hvernig staðan er með gjaldeyrisviðskipti þessa dagana þannig að það getur einhver töf orðið á því að nýjar vörur komi inn. Ég vona að þið sýnið mér biðlund og takið tillit til aðstæðna.

Af góðum fréttum get ég sagt ykkur að Knit Picks prjónarnir eru komnir í sölu í Skrínunni á Selfossi og Handavinnuhúsið í Borgarnesi auk þess sem Nálin er með þá eins og áður.

Kreppukveðjur, Elín.

 
«ByrjaFyrra1234NæstaEndir»

Síða 1 af 4